
Snæfell – Ævintýri á Austurhálendi
Dagsetning: 27.-31. júlí 2026
Verð á mann: 162.000 kr
Vilt þú upplifa einstakt ævintýri á austurhálendi Íslands? Þessi ógleymanlega gönguferð býður uppá stórbrotna náttúrufegurð. Við ætlum við að ganga í kringum og á Snæfell (1833 metrar), hæsta fjall Íslands utan jökla, sem gnæfir yfir hálendið og býður uppá stórkostlegt útsýni yfir Dyngjufjöll, Herðubreið, Kverkfjöll og Lónsöræfin sem blasa við í allri sinni dýrð.
Við gistum í svefnpokaplássi í Snæfellsskála og í uppábúnum rúmum í Laugarfelli og Óbyggðasetrinu, þar sem heitir pottar, afslöppun og dýrindis tvírétta kvöldverðir bíða okkar.
Þessi ferð sameinar allt það besta sem hálendið hefur upp á að bjóða – einstaka óbyggðastemningu, fjölbreytt landslag með glitrandi jöklum, litríkum líparíthryggjum, mosaþöktum sléttum og dramatískum svörtum söndum og er fyrir þá sem vilja sameina náttúruupplifun, líkamlega áskorun og djúpa tengingu við afskekkt og ósnortið hálendi Íslands.
Dagur 1: Í átt að Snæfelli
Ferðin hefst í Fljótsdal þar sem hópurinn hittist um morguninn. Þeir sem fljúga austur geta fengið skutl frá Egilsstaðaflugvelli gegn vægu gjaldi, aðrir mæta beint á upphafsstað.
Við ökum suður fyrir Snæfelli, að Eyjabakkasvæðinu, og hefjum göngu norður fyrir fjallið með viðkomu í Vatnsdal. Þaðan blasir við okkur stórkostlegt útsýni yfir Dyngjufjöll, Herðubreið og Kverkfjöll. Við þræðum okkur áfram meðfram Dökkár- og Ljósárjöklum, sem hanga í norðanverðu fjallinu og minna á Alpafjöllin.
Gisting í Snæfellsskála, þar sem við dveljum næstu tvær nætur.
Ganga: ~10 km | Hækkun: 500 m | Lækkun: 400 m
Dagur 2: Tindganga á Snæfell
Í dag göngum við á Snæfell (1833m), sem er hæsta fjall Íslands utan jökla og kallað "konungur íslenskra fjalla". Gangan hefst við skálann og tekur um 6–7 klst. Ferðin er krefjandi en viðráðanleg fyrir flesta í góðu gönguformi. Ef heppnin er með okkur er útsýnið með því flottara sem gerist á þessu landi..
Ganga: ~12 km | Hækkun: 1000 m | Lækkun: 1000 m
Dagur 3: Í gegnum Þjófadali og suður um Snæfell
Við yfirgefum Snæfellsskála og höldum inn í Þjófadali – dulúðugan og fáfarinn dal suðvestan við fjallið. Sagan segir að sauðaþjófar hafi leitað þar skjóls, enda auðvelt að týnast í þessum litríka og óbyggða dal. Líparíthryggir, kolsvartur sandur og mosagrænar sléttur móta landslagið og bjóða upp á sjaldséðan litadans náttúrunnar.
Við göngum áfram suður fyrir Snæfell og fáum stórkostlegt útsýni yfir Eyjabakka og Lónsöræfi. Við komum við í Hálsakofa og endum daginn við Sóta, stóran klettadrang undir Sótajökli. Þar tekur bíll á móti okkur og flytur okkur í Laugarfell, þar sem við gistum í tveggja manna herbergjum með uppábúnum rúmum og slökum á í heitum laugum eftir langan dag.
Ganga: ~15–17 km | Hækkun: 300 m | Lækkun: 400 m
Dagur 4: Fossaleiðin í Fljótsdal
Dagurinn hefst með nærandi morgunverði og svo höldum við áfram göngunni niður af hálendinu um hina rómuðu Fossaleið. Við fylgjum Jökulsá í Fljótsdal á ferð hennar frá Eyjabökkum niður í Lagarfljót – þar sem fjölmargir fossa gleðja auga og anda.
Við endum daginn í Óbyggðasetri Íslands – einstökum stað innst í Fljótsdalnum þar sem við njótum kvöldverðar, góðrar gistingu í lokrekkjum og slökunar í heitum potti og sánu. Það verður engin svikin af því að dvelja í Óbyggðasetri en staðurinn lætur engan ósnortinn.
Ganga: ~15 km | Lækkun: 400 m
Dagur 5: Heimferð
Eftir notalegan morgun og góðan morgunverð kveðjum við dalinn og höldum heim á leið, uppfull af minningum um friðsæld og fallegri náttúruupplifun.
Aðrar upplýsingar:
-
Trúss og akstur fer eftir þátttöku og fjölda bíla í hópnum.
-
Dagskrá getur tekið breytingum eftir veðri – t.d. gæti Snæfell verið gengið annan dag en upphaflega er skráður.
Innifalið:
-
2 nætur í svefnpokaplássi í Snæfellsskála
-
1 nótt í Laugarfelli í 2ja manna herbergi
-
1 nótt í Óbyggðasetrinu í lokrekkju
-
Fullt fæði
-
Leiðsögn
-
Farangurstrúss




















