Starfsfólk
Um okkur
Við Milla og Krilla erum vinkonur til margra ára og höfum oftar en ekki verið kallaðar síamstvíburar. Við eru eiginkonur og mæður þriggja “barna” sem höfum ferðast saman um fjöll og firnindi til fjölda ára.
Uppúr árinu 2000 fórum við að fara saman á fjöll með börnum og mökum, þá var farið í gönguferðir um land allt og allir höfðu gaman af. Upp úr þessu fórum við vinkonurnar að svala gönguþörfinni með gönguhópnum okkar Mammútsystrum, en hópurinn samanstóð af 14 konum með mikla hreyfiþörf. Þessi hópur hefur gengið þvers og kruss um fallega landið okkar. Til að vera fljótari í förum, skellum við okkur stundum á skíðin en við vinkonurnar erum á svigskíðum, gönguskíðum og fjallaskíðum sem verða alltaf vinsælli og vinsælli hérlendis.
Árið 2015 útskrifuðumst við frá FAS á Höfn í Hornafirði úr fjallamennskunámi. Sumarið 2016 byrjuðum við báðar að vinna hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum og samhliða því tókum við meiraprófið.
Í ferðunum hjá Fjalló vorum við með erlenda ferðamenn í ferðum og langaði okkur að bjóða íslenskum konum að upplifa það sem við vorum búnar að upplifa sjálfar undafarin ár; fallegu íslensku náttúruna, skemmtilegan félagsskap, að njóta líðandi stundar og að geta verið við sjálfar. Þetta köllum við hið fullkomna "HÚSMÆÐRAORLOF".
Árið 2018 tókum við það skref að bjóða uppá kvennaferðir norður á Strandir sem við köllum “Þar sem vegurinn endar”. Þetta var fyrsta ferðin okkar og er enn í dag okkar allra vinsælasta ferð.
Litla hugfóstrið okkar hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt í gegnum árin. Fjölbreytnin aukist og tímabilið lengst. Í dag bjóða Millu og Krillu ferðir uppá ferðir og námskeið allt árið í kring, bæði á tveimur jafnfljótum og á skíðum.
