
Gönguferð um Amalfi ströndina (Skvísuferð)
Dagsetning: 10. - 17. október 2026. Uppselt
Í þessari dásamlegu gönguferð munum við kynnast einu fegursta svæði Ítalíu, Amalfi. Fallegar gönguleiðir, með mögnuðu útsýni, þar sem Miðjarðarhafið blasir við af fjallshlíðum, leiða okkur um hrífandi strandþorp, ilmandi sítrónulundi og fornar minjar.
Við heimsækum fræg þorp eins og Amalfi, Ravello, Praiano og Positano, sem hvert hefur sinn sérstaka sjarmerandi karakter og menningarsögu og við göngum m.a. hina heimsfrægu gönguleið guðanna "Sentiero degli Dei" með útsýni sem telst meðal þess fegursta í heiminum.
Fjölbreyttar gönguleiðir, allt frá þægilegum menningarleiðum til meira krefjandi fjallastíga, henta göngufólki með góða almenna þjálfun.
Þetta er fullkomin blanda af náttúrufegurð, fallegum þorpum, dásamlegum mat og hlýjum ítölskum andblæ.
Verð á mann í tveggja manna herbergi: kr. 339.000.
Innifalið:
• Rútuferð frá Róm til Amalfi og til baka.
• Gisting í 3* hótelum með morgunverð í 7 nætur
• Farangurstrúss milli hótela
• Leiðsögn
• Aðgangur að Villa Cimbrone
Ekki innifalið:
• Millilandaflug
• Hádegisverðir
• Kvöldverðir
• Ferðatrygging og Gistináttagjald.
Leiðarlýsing:
Dagur 1: Komudagur – Róm-Amalfi
Við fljúgum til Rómar. Þar tekur við 3,5 klst rútuferð til strandbæjarins Amalfi þar sem við gistum í 3 nætur. Stutt skoðunarferð um miðbænum og/eða sundsprettur til að skola af sér ferðaþreytuna.
Dagur 2: Amalfi – hringferð um Torre dello Ziro og Valle dei Mulini
Fyrsta dagsgangan er tiltölulega auðveld og gefur góða mynd af ríkulegu menningar- og náttúrulandslagi Amalfi-strandarinnar. Gengið er upp fornar tröppur að þorpinu Pontone, þar sem hin stórfenglega Torre dello Ziro trónir á mjórri fjallsbrún með óviðjafnanlegu útsýni yfir Amalfi og Atrani.
Leiðin liggur áfram í gegnum Pontone og inn í Valle dei Mulini, dal myllanna, með rústum elstu pappírsverksmiðju Evrópu og fallegum fossum. Leiðin niður til Amalfi liggur um sítrónulundi, miðjarðarhafsgróður og fornar rústir. Í Amalfi er tími til að njóta; heimsækja pappírssafnið, "chilla" á kaffihúsi eða skella sér í sjóinn. Gist á hóteli í miðbæ Amalfi.
Ganga: 9 km, 4–5 klst., +/- 450 m
Dagur 3: Amalfi – hringferð um miðaldarþorp Costa Amalfitana
Í dag göngum við upp í miðaldarþorpið Ravello, eitt sögufrægasta þorp Amalfi-strandarinnar, þekkt fyrir ríka menningarsögu og stórfenglegt útsýni. Þar hafa m.a. listamennirnir Boccaccio, D.H. Lawrence og Richard Wagner dvalið og leitað innblásturs.
Í Ravello má sjá merkilegar miðaldaminjar og heimsfrægar hallir á borð við Villa Rufolo og Villa Cimbrone, með görðum og stórkostlegu útsýni yfir Salernóflóa. Eftir rólega göngu um þorpið trítlum við niður miðaldatröppur, gegnum víngarða og sítrónulundi, til Atrani, eins best varðveitta miðaldaþorps Amalfi strandarinnar. Þaðan liggur leiðin eftir þröngum götum yfir til Amalfi.
Ganga: 9 km, 4 klst., +/- 480 m
Dagur 4: Amalfi – Praiano (Via Maestra dei Villaggi)
Við pökkum niður og höldum frá Amalfi. Við fylgjum við hinum forna stíg Maestra dei Villaggi, sem liggur í gegnum þorpin Lone og Vettica og upp að klaustrinu Santa Rosa. Þaðan heldur leiðin áfram til Conca dei Marini með stórbrotnu útsýni og síðan niður að ströndinni, framhjá fallegum kirkjum og inn í dramatíska fjörðinn Furore.
Eftir stutta göngu upp til Sant’Elia tökum við leiðina Via dell’Amore inn í gróna Praia-dalinn. Gangan endar í Praiano, þar sem við dveljum næstu tvær nætur.
Ganga: 11 km, 6 klst., +700 m / -500 m
Dagur 5: Græni dalur Praia
Í dag göngum við frá hótelinu upp í litlu kirkjuna Santa Maria di Costantinopoli og þaðan eftir stíg í gegnum þorpið og inn í Praia-dalinn með víngörðum á bröttum klettum. Við klifrum áfram upp til kirkjunnar Sant’Alfonso og hellanna Santa Barbara.
Eftir stórbrotið útsýni yfir alla ströndina, alla leið til Capri, hefst niðurleið aftur til Praiano eftir fornri tröppugönguleið. Hægt er að fara í aukagöngu niður að fallegri vík sem heitir Cavitella.
Ganga: 8 km, 5 klst., +/- 600 m
Hægt er að sleppa þessum göngudegi og fara í bátsferð meðfram ströndinni og/eða til Capri, eða fara á námskeið í ítalskri matargerð.
Dagur 6: Praiano – Positano (Sentiero degli Dei)
Við hefjum göngu dagsins eftir hvítmáluðum strætum Praiano og áfram upp pílagrímaleið að klaustrinu San Domenico með stórbrotnu útsýni yfir ströndina. Þaðan höldum við áfram um fallegt og fjölbreytt landslag yfir á hina heimsþekktu Gönguleið Guðanna Sentiero degli Dei, með einstöku útsýni alla leið til Nocelle og Montepertuso.
Að lokum liggur stutt og falleg leið niður til Positano, eins fegursta þorps Ítalíu og sannrar perlu Amalfi-strandarinnar. Hér ætlum við að gista síðustu tvær næturnar.
Ganga: 8,5 km, 4,5 klst., +500 / -600 m
Dagur 7: Montepertuso – Positano
Við tökum rútu upp til Montepertuso, þaðan hefst falleg ganga um efri hluta dalsins fyrir ofan Positano. Við fylgjum skógarstígum að Santa Maria al Castello, þar sem útsýni yfir bæði Salernóflóa og Napólíflóa blasir við.
Leiðin niður liggur í gegnum skóg að Caserma Forestale. Þar er hægt að klífa upp á Monte Sant’Angelo, hæsta fjall skagans. Aðalleiðin liggur til Montepertuso og síðan niður til Positano eftir miðaldastíg.
Ganga: 7 km, 4 klst., +350 m / -550 m
Dagur 8: Heimferð
Eftir morgunverð förum við með rútu upp til Rómar þaðan sem við fljúgum heim á Frón.
Tilvalið er að lengja ferðina og skoða Róm.



























